Börn slegin lægsbjóðanda.

ÓS Eyrabakka Þórður Jónsson Eyrarbakka

Börn slegin lægstbjóðanda

Eftirfarandi frásögn er rituð af Þórði Jónssyni á Eyrarbakka , og segir frá því er börn örbjarga fólks voru boðin upp og slegin lægstbjóðanda.Þessi frásögn er um niðja Þórunnar Sveinsdóttur ömmu minnar frá ‘Osi á Eyrarbakka. Heimildir úr Alþýðublaðinnu 1937.

Mikið hefur verið rætt og ritað síðustu árin um slysavarnir á sjó og þjóðin hefur sýnt ágætan skilning og áhuga á þessari þörfu starfsemi, sem best hefur komið í ljós í fjárlögum, sem þjóðin hefur látið af hendi til slysavarna á sjó, og má hiklaust telja slysavarnafélag ‘Islands einhverja þörfustu félagsstarfsemi seinni ára. Um það eru allir sammála.

Og nú er einnig hafin sams konar starfsemi um að kenna fólkinu að verjast slysum á landi. Má fyllilega vænta sama skilnings þjóðarinnar á þeirri tegund slysavarna.

En þegar talað er um slys og slysavarnir , er nauðsynlegt að gera sér ljóst, hver eru hin raunverulega og algengasta orsök slysanna – að minnsta kosti á landi, en áfengisnautn tel ég langalgengasta orsök slíkra slysa.

Um þessa slysahættu vilja menn sem minnst tala. Það er oft sagt svo undur sakleysislega og eins og það sé varla í frásögur færandi að t.d. þegar bílstjóri hvolfir bíl, að hann hafi verið " undir áhrifum víns" . Að vísu hafa nokkrir templarar bent réttilega á þessa slysahættu og aldrei þreyst á því, - en síðan sá félagsskapur varð til hér á landi , hefur ætíð mikill meiri hluti þjóðarinnar litið slíka menn og starfsemi þeirra fremur illu auga og talið þá öfgafulla og vitlausa og áfengið meinlaust grey ,sem ekki væri veruleg ástæða til að óttast , og slys af þess völdum því ekki nærri eins tilfinningaleg og úr væri gert. Það er litið á áfengishættuna sem sjálfsagt böl eða jafnvel ekki böl!En misvitur var Njáll, og því lét hann sig brenna inni. Það er fagurt og gott að láta fé og krafta til þess að forða meðbróður sínum frá hættu og slysum, hvort heldur er á sjó eða landi, og í þeirra fylkingu, sem það vilja gera , standa þeir vissulega , sem forða vilja þjóðinni frá áfengisnautninni.Þeir eru hins vegar allt of fáir, sem vilja leggja það á sig að vinna að þessum slysavörnum – útrýmingu áfengisnautnar – svo að þar stöndum við í sömu sporum og fyrir öldum síðan . Ef til vill verður það og hlutskipti þessarar þjóðar að standa í því efni enn næstu aldirnar í sömu sporum og vera drykkjuþjóð. – Hver getur sagt um það ? – En slíkt væri illa farið.

‘Eg skal ekki hafa þennan inngang lengri, því þá þekki ég illa mína ástkæru, íslensku þjóð, ef hún yfirleitt verður ekki fljótt leið á bindindispredikunum.

Það er hins vegar dálítil saga – gömul saga – sem ég ætla að láta fylgja þessum formála.

main38[1]

Saga þessi er að vísu ekki nema ein af fjölda sömu tegundar, og heldur ekki sorglegri en fjöldi slíkra sagna. En hún er – að mér finnst – í dálitlu samræmi við það, sem hér að ofan er sagt, og þess vegna set ég hana hér.Það eru menn,komnir á efri ár, sem hafa sagt mér hana.

Það var vetrarvertíðina 1870, að allt áfengi var þrotið í verslunum á Eyrarbakka nokkru fyrir páska. En menn kunnu ekki þá hina þjóðfrægu íþrótt að brugga áfengi og voru í því efni algjörlega háðir innflutningi á þeirri vöru, og sjaldan var það, þó þrot væru á nauðsynjavöru á Eyrarbakka, að ekki væri til hið alkunna brennivín hjá Lefolii.

Um 1870 bjó á Stóru-Háeyri Þorleifur hinn auðgi, sem þjóðkunnur varð af hinum mikla auð sínum. Hann seldi brennivín í stórum og smáum skömmtum, - vafalaust í fullri lagaheimild á þeim tíma, -með mörgu fleiru. – En svo hittist á umrædda vetrarvertíð, að allt brennivín var þrotið, einnig hjá Þorleifi, þegar að páskum leið.

Slíkum kaupsýslumanni, sem Þorleifur var, sæmdi lítt að hafa ekkert brennivín handa viðskiptamönnum sínum um sjálfa stórhátíðina. Kærkomnasta "lífgjafann" allra hátíða og tyllidaga áfengið – mátti til með að ná í, með illu eða góðu, meðan nokkur dropi væri til af því vestan Hellisheiðar.Það varð því að sækja það alla leið til Reykjavíkur.

En verulega góð ráð verður stundum að kaupa dýru verði, og þá voru engar bifreiðar eða önnur fljót og þægileg faratæki.

Magnús er maður nefndu og var ‘Ingvarsson. Hann var formaður á skipi,er átti Þorleifur á Háeyri, þessa umræddu vetrarvertíð.Magnús þessi byrjaði ungur formennsku á Eyrarbakka og var formaður fram á elliár. Var hann með fremstu formönnum þar, aflasæll, aðgætinn og vaskur maður.

Þorleifur fékk Magnús ‘Ingvarsson, besta formann sinn, til þess að fara til Reykjavíkur og sækja þangað brennivín á 20 potta kút , og skyldi einn hásetinn á skipinu vera formaður, á meðan Magnús var í brennivínsleiðangrinum. Sá hét Sveinn Arason (afi Þórunnar Sveinsdóttur ömmu minnar) frá Simbakoti, mesti fullhugi, en óvanur formennsku. Sá Sveinn var faðir Sveins á Sunnuhvoli (áður ‘Osi) á Eyrarbakka, er síðar verður nefndur.

Magnús ‘Ingvarsson lagði af stað til Reykjavíkur laust fyrir bænadagana með tóman tuttugu potta kút á bakinu – á máli þess tíma kallað hálfker – en á þeim tíma kunnu Eyrbekkingar engu síður en aðrir landsbúar á íþrótt að bera þungar og illa lagaðarbyrgðir á bakinu. Er ekki getið annars en að ferð Magnúsar hafi í alla staði gengið greiðlega.

En þegar hann kemur niður að Hrauni í Ölfusi á heimleið með brennivínskútinn seint á laugardagskvöldið fyrir páska, frétti hann þau tíðindi, að skip hans hafi farist þá um daginn með allri áhöfn.Þetta umrædda skip var lítið, eins og þau skip, sem gerð voru út frá Eyrarbakka á þessum tíma, aðeins sex manna far. –Venjuleg áhöfn á skipunum var 7 menn. Með þessu skipi fórust sex menn ; fleiri menn voru ekki innanborðs þennan róður.Eins og venjulega, þegar svona slys ber að höndum, er eitthver af þeim mönnum, sem farast, fjölskyldumenn. Svo var einnig í þetta skiptið. Sveinn Arason, sem var formaður skipsins í fjarveru Magnúsar, lét eftir sig ekkju, Margréti Jónsdóttur að nafni, og fimm börn ung. Og bjuggu þau hjón á Simbakoti á Eyrarbakka. – Hinir, sem fórust með skipi þessu, voru: ‘Olafur Björgólfsson, Sölkutóft, 46 ára, Jón ‘Arnasson frá Þórðarkoti í Flóa, 18 ára, OddurSnorrasson í Einkofa á Eyrarbakka 48 ára, Sigmundur Teitsson,Litlu-Háeyri, Eyrabakka, 31 árs, Jón Guðmundsson, Litlu-Háeyri, Eyrarbakka, 59 ára. Allir þessir menn hraustir og hinir mestu vaskleikamenn.

Börnum Sveins Arasonar í Simbakoti, sem var bláfátækur maður, var ráðstafað á sveitina eftir lát hans. Slíkir barnahópar hafa ætíð þótt lítill hvalreki fyrir viðkomandi sveitafélög.

250px-thorunn_julia_sveinsdottir[1]

Sveinn á Sunnuhvoli (Faðir Þórunnar Sveins), sem áður er nefndur, fæddur 9 október 1863, var því einn þessara barna, sem tekin voru úr mjúkum móðurhöndum og boðin upp að þeirra tíða sið og slegin lægstbjóðanda. Slík uppboð voru í andstöðu við öll önnur uppboð, þar sem hæstbjóðandi hlaut vöruna.

Og þar var Þorleifur á Háeyri, sem var uppboðshaldari á varningi sem aðalráðamaður Eyrarbakkahrepps. Þá var Eyrarbakki og Stokkseyri sami hreppurinn.

Sveinn lenti austur í Stokkseyrahreppi í frámunalega vondum stöðum. ‘I stuttu máli: Æska hans og uppeldi var með því aumasta, svo aum, að ég sleppi því að lýsa því hér , að minnsta kosti nú, því slíkt yrði of langt mál í þessari grein.

Vegna þess hversu Magnús ‘Ingvarsson lánaðist vel formennska alla sína löngu formannstíð á Eyrarbakka, hafa aldraðir menn hér á Eyrarbakka talið þessa ráðabreytni Þorleifs á Háeyri valda að slysi þessu , sem að framan er lýst. Og Sveinn á Sunnuhvoli (‘Osi) telur hiklaust brennivínskút Þorleifs á Háeyri valdan að æskuógæfu sinni. Sjálfur drakk Þorleifur ekki áfengi, til þess að gjöra slíkt var hann hyggnari og gáfaðri maður og meiri fjármálamaður. En hann seldi áfengi, - og það var ógæfan.

‘A páska morgun var lík Sveins Arasonar í Simbakoti rekið upp í sandinn neðan við Stóru-Háeyri og borið upp á hlað hjá Þorleifi, og hann spurður, hvert ætti að fara með það, og svaraði því á þá leið, að það ætti að flytjast að Simbakoti til hennar Margrétar (ömmu þórunnar Sveins); hún hafi kosið að eiga Svein lifandi og myndi því eins vilja hann dauðan. En áður höfðu þeir deilt um þessa konu, Þorleifur og Sveinn.

Gæfumunur þeirra Þorleifs á Háeyri og Margrétar í Simbakoti á páskamorguninn árið 1870 var sá, að Þorleifur átti 20 potta af brennivíni til í brennivínskútnum til að selja um páskana. En Margrét fékk mann sinn, aðalstoð og styttu heimilisins, dauðan heim fluttan og börnin tætt frá brjóst sér.

Hefði Þorleifur starfað að útrýmingu áfengisnautnarinnar í stað þess að auka hana eftir mætti, hefði Margrét og börn hennar ekki orðið fyrir þessum hræðilegu örlögum.

Þau fáu skip sem gjörð voru út á Eyrarbakka á þessum árum, voru aðallega 6 manna för, eins og áður var sagt, og var þeim róið allan veturinn, frá því á haustin hvenær sem gaf á sjó, og sett upp í sandinn – fjöruna – og stóðu þar milli róðra. Þessi hlutur ársins var nefnt haustvertíð. Haustvertíðina reru ýmsir á skipum þessum, sem ekki voru ráðnir hásetar á þau vetrarvertíðina, en formenn voru venjulega þeir sömu.

‘A þessum tíma, sem hér um ræðir, bjó á Litlu-Háeyri Jón Jónsson. Kona hans hét Þórdís Þorsteinsdóttir. Þau voru alkunn merkishjón. Þau áttu þrjá sonu, Helga, Guðjón og Sigurð. Þessir bræður þrír – Helgi, Guðjón og Sigurður – voru ætíð í daglegu tali nefndir Litlu-Háeyrar- bræður. Þeir voru um fjölda ára frægastir formenn austanfjalla, og allir hin mestu valmenni og vinsælir með afbrigðum, aflamenn miklir og aðgætnir sjómenn. Helgi Jónsson var 39 vetrarvertíðir formaður í Þorlákshöfn. Guðjón Jónsson var 40 vetrarvertíðar formaður á Eyrarbakka. Sigurður Jónsson bjó á Akri á Eyrarbakka, byrjaði ungur formennsku og var formaður ýmist á Eyrarbakka eða Þorlákshöfn til dauðadags, dó á miðjum aldri, 1901.’Eg sem þetta rita, reri hjá honum síðustu þrjár vertíðirnar í Þorlákshöfn, sem hann lifði, og minnist ég ekki að hafa kynnst öðru eins góðmenni og Sigurði frá Akri.

Synir þeirra Litlu-Háeyrabræðra virðast ekki ætla að verða eftirbátar feðra sinna. Synir Sigurðar eru þeir skipstjórarnir Kolbeinn með togarann Þórólf og Jón með togarann Hilmi.

Sonur Guðjóns, Sigurður, er skipstjóri á togaranum Skallagrími.

Sonur Helga er Jón, sem til fjölda ára hefur verið skipstjóri á vélbátnum Frey, ýmist frá Sandgerði eða Eyrarbakka. Guðjón á Litlu-Háeyri er fjórði ættliður búanda á Litlu-Háeyri. Helgi Jónsson andaðist 1929.

Helgi var þeirra elstur. Hann var ráðinn háseti þessa vetrarvertíð, sem áður um getur, hjá Magnúsi Ingvarssyni, þótt ungur væri, þá 14-15 ára. Jón Jónsson á Litlu-Háeyri var talinn vera skyggn maður, og eru til ýmsar sagnir, sem benda ótvírætt á það, að svo hafi verið, og skal hér ein sú sögn rituð.

Þennan vetur nokkuð fyrir vertíð var Jón á Litlu-Háeyri á gangi niður á sandi – fjöru – kvöld eitt nokkru fyrir háttatíma í skuggsýni. Er hann gengur fram hjá skipi Magnúsar Ingvarssonar,sér hann alla háseta standa – hvern við sinn keip – alsjóklædda, nema hann sér hvergi Magnús formann og ekki Helga son sinn.Við sýn þessa bregður Jóni svo, að hann sagði upp skipsráðningu Helga sonar síns, og var annar maður ráðinn í skipsrúm hans og fórst hann með skipinu.

Eftir þessa atburði og strax eftir páskana var útvegað annað skip handa Magnúsi Ingvarssyni og ráðnir nýir hásetar til hans, og þeirra á meðal var Helgi Jónsson frá Litlu-Háeyri. Var þá ekkert því til fyrirstöðu, að Jón faðir hans samþykkti ráðningu hans, enda gekk allt vel og slysalaust hjá Magnúsi það sem eftir var vertíðar, eins og líka einnig hans löngu formannstíð.

Örlagahjólið snýst stundum einkennilega. ‘I mjög helgri bók, sem við eigum, er dálitla sögu að finna um ríkan mann og fátækan.Sagan hér að framan um litla fátæka drenginn, sem missti föður sinn í sjóinn, vegna þess að ríki maðurinn þurfti að auka í pyngju sinni með brennivínssölu á helgri páskahátíð, er hliðstætt dæmi.

En auður ríka mannsins, Þorleifs á Háeyra, fór allur út í "veður og vind" strax eftir hans daga og kom engum að gagni.

May26_50

En Sveinn Sveinsson (faðir Þórunnar Sveins), sem einu sinni var boðinn upp og sleginn lægstbjóðanda, lifir nú glaður og ánægður í elli sinni hjá efnilegum börnum sínum við nóg efni, sem dregin eru saman með dugnaði og reglusemi.

Sveinn byrjaði ungur búskap á Eyrarbakka og kvæntist Ingunni Sigurðardóttur, ættaðri undan fjöllunum. Frábær dugnaður þeirra hjóna í lífsbaráttunni hefur jafnan verið rómaður af þeim, sem til þeirra hafa þekkt. Þau eiga nú 5 börn á lífi, 4 dætur og einn son.

Núna er Sveinn 74 ára. En Ingunn kona hans 78 ára.(1937) Þau eignuðust 5 börn, 4 dætur og einn son.þau voru: Þórunn Júlía, Jónína , Anna og Sveina og bróðirinn Sigurður. Þórunn Júlía, Jónína og Sveina bjuggu allar í Vestmannaeyjum en Anna og Siggi á Eyrarbakka

Sveinn Sveinsson er greindur maður, og það er vissulega ánægjulegt að eiga tal við hann um liðnu árin og áratugina, sem hann hefir lifað. Hann hefir alla ævi, frá því hann hafði mátt til, þrælað baki brotnu bæði á sjó og landi og ratað í mörg ævintýri, þar sem teflt var á tæpasta vaðið. Hann var t.d. einn háseta Þorkels Þorkelssonar frá ‘Oseyrarnesi í hrakningsróðri þeim hinum alkunna og ægilega , er Þorkel hrakti úr Þorlákshöfn í mannskaðaveðri 29. Mars 1883 í moldösku gaddbyl, en af sérstakri tilviljun rak skipið að franskri fiskiskútu í náttmyrkrinu og bylnum langt úti á hafi.

Aðra svaðilför fór Sveinn eitt sinn á yngri árum sínum, er hann fór fótgangandi af Norðfirði til Eyrarbakka. Lagði hann af stað um miðjan nóvember og komst til Eyrarbakka viku fyrir jól. Þá lenti hann í alls konar hrakningum og ævintýrum, óð vötnin í axlir í heljarfrosti, lá úti og tepptist í blindhríðum.

Nú brosir gamli maðurinn að öllum ævintýrunum og liðnum mæðudögunum.

Núna er árið 2008 og eru Sveinn og Margrét og öll börnin farin yfir móðuna miklu .

Þórunn Sveinsdóttir og Sveinn Matthíasson faðir minn hann var skýrður eftir þessum Sveinum sem fjallað var um hér að framan.

Dec18717


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Góð grein hjá þér Matthías, kær kveðja.

Helgi Þór Gunnarsson, 3.4.2008 kl. 00:13

2 identicon

Maður bara veit ekki meir að fjölskyldan er byrjuð að blogga!!!

Til hamingju með síðuna

Kveðja að norðan!! 

Eygló (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 19:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband