Minningarbrot nr 2

 Gamlar myndir0005

Þegar komið var að slætti fyrstu sumrin þegar ég var í Arnarbæli þá var byrjað á að slá túnin en þau voru þrjú túnin sem tilheyrðu okkur, eitt var austan við bæinn og tvö norðan við hlaðið sitt hvoru megin við vegin sem lá upp að Króki og Stöðlum , túnin voru slegin með hestasláttuvél (það var vagnhestur sem dró hana) og þar sem var mjög þúfótt þar var slegið með orfi og ljá , nú var nóg að gera við heyskapinn , að snúa heyinu var það gert nokkrum sinnum meðan það var að þorna , síðan var heyinu rakað saman í garða og svo var farið að sæta (setja heygið í sátur) og þegar það var búið voru yfirbreiðslur settar yfir sáturnar ef það skildi koma rok eða rigning, svo þegar koma átti heyinu í hlöðuna þá var farið að binda sáturnar, reipi voru sett undir sáturnar og svo voru þau bundin utanum sátuna við þetta þurfti tvo til og voru þá tveir og tveir saman við þetta verk yfir leit einn kaupamaður og ein kaupakona og var oft kátt á hjalla við þetta verk. Þegar búið var að binda voru baggarnir settir á hestvagna og farið með þá í hlöðuna og þar voru böndin losuð og heyinu dreift í hlöðuna og troðið .

                                                                                     Hér eru kaupakonurnar að vinna í heyinu

Pict0010

Þegar við vorum að heyja á engjunum þá var fyrst slegið uppá árbakkanum og heygið þurrkað og rakasaman og sett á sátur og síðan var störin (grasið ofan í mírini) slegið með orfi og ljá og það síðan dregið upp á bakkann og þurrkað þar eftir að búið var að þurrka allt heyið og binda það í bagga, var böggunum komið fyrir á hestvagna og svo voru hestvagnarnir bundnir hver aftan í annan og síðan var farið með lestina heim og heyinu komið fyrir í hlöðunni og eins var farið að í úreyjunum . Þegar stund var milli stríða þá fórum við krakkarnir oft í einhverjar íþróttir til dæmis hástökk eða fótbolta eða einhver hlaup, stundum var farið á sunnudögum til Hveragerðis og þar farið í fótbolta við krakkana þar. Ég held að við höfum haft mjög gott af dvölinni í sveitinni , við lærðum að vinna og lærðum að umgangast dýrin lærðum að mjólka kýrnar sem á þessum tíma voru mjólkaðar með höndunum og þurfti lagni við það. Einnig lærðum við að bera virðingu fyrir fullorðna fólkinu og lærðum að hlýða . Á þessum tíma var sveita sími á bæjunum og voruð allir símar í sveitinni samtengdir, þannig að þegar maður hringdi á næsta bæ þá gátu allir á hinum bæjunum hlustað, hver bær hafði sýna hringingu til dæmis eina langa og tvær stuttar það var sveif á símanum sem þú snérir ein löng var heill snúningur en ein stutt var kannski hálfur snúningur . Það var ekki kominn sími heima hjá okkur á Brimhólabrautinni á þessum tíma þannig að maður frétti ekkert frá mömmu eða pappa löngum stundum, nema þegar við fengum pakka með mjólkurbílnum sem kom að ná í mjólkina á bæina og þótti manni voðalega gott að fá pakka og bréf að heiman, ekki man ég eftir að mér hafi leiðst en þó kom fyrir að maður fengi heimþrá. Ég eignaðist reiðhjól þegar ég var í sveitinni það var að Möve gerð og var maður voðalega mannalegur með það , við fórum stundum á hjólunum uppí Hveragerði og jafnvel austur á Selfoss .

 Mínar myndir 012'Eg og Erla frá Stöðlum.

Það var eitt sumarið strákur í Arnarbæli frá Keflavík sem spilaði á harmonikku hann hér Lúlli (Lúðvík) og stundum slógum við upp balli í Nýabæ (sá var í eyði) og þar dönsuðum við , við stelpurnar frá Stöðlum og var það mjög gaman fannst okkur. Það var einnig oft farið í útreyðatúra (á hestum) ef ekkert var að gera við fórum stundum út á engjar og þá var farið alveg út á nauteyrar sem er tangi sem var vestast á engjunum og vorum við þá komnir langleiðina að bænum Hrauni í Ölfusi.. Einnig fórum við á frjálsíþrótta mót sem haldin voru á þjósártúni og var oft mikið um manninn þar , einnig var farið á hestamannamót sem haldið var á Hellu .

                                                              Þetta er mynd sem er tekin ofan í aðra, lóðrétt er Lauga sem var gift Rósa sennilega með Kidda son sinn, og á hinni er Hjörleifur bóndi með reiðhestinn sinn

Pict0011

Rósi fór að vera með konu sem var frænka Bjarna í Stöðlum hún hét Lauga og fóru þau svo að búa í Nethömrum (bærinn sem stóð austan við Arnarbæli) , en ég var áfram í Arnarbæli og var ég þar í sveit þar til ég var 14 eða 15 ára, Pétur var held ég 1 sumar í Nethömrum hjá Rósa og Laugu en hann undi sér ekki vel þar honum leiddist , Nethamrar var mikið minni bær en Árnabæli og voru þau með litla krakka því Lauga átti strák fyrir sem hét Kiddi og var hann orðinn aðeins stálpaður þegar þetta var , en hann gerði ennþá í buxurnar og var Pétur látinn fara með buxurnar af honum niður í á að skola úr þeim kúkinn og var hann víst ekki hrifinn af því . Silungs veiði var þó svo lítið stunduð í Ölfusáni aðallega í net, það var yfirleit lagt net út af tanganum niður af Nethömrum því þar voru klappir og djúpur hillur , einnig var svolítið gert af því að draga fyrir sem kallað var en það var yfirleitt gert í sundunum á milli úteyjanna og var það gert í skjóli nætur því það var og er bannað að draga fyrir , við krakkarnir fórum oft með stöng í læk sem var út á engjum sem mig minnir að hafi heitið Þórisós eða Þorláklækur og fengum við oft silung þar og einnig var verið með stöng í Sandá, í þessum ám var smár fiskur sjóbirtingur , en fiskurinn sem kom í netin í Ölfusánni var oftast stór fiskur . ('Oskar á Sigurbáru kaupir síðar 'Osgerði og fær með því veiðréttindi í ánni, og byggir á bæjarstæðinnu stórt Bjálkahús)

 Mínar myndir 009'Eg 15 ára," er ég eitthvað prestlegur"

. Hjörleifur sagði einhvertíma við mig " Matti þú verður aldrei sjómaður þú verður annað hvort bankastjóri eða prestur " . Hjörleifur og Unnur hættu búskap fljótlega eftir að ég hætti í sveitinni þau fluttu til Reykjavíkur, fyrst í lítið hús sem stóð við Suðurlandsbrautina en síðustu æviárin bjuggu þau að Hólmgarði 8 eftir að húsið við Suðurlandsbrautina var rifið þegar það var orðið fyrir skipulaginu , Hjörleifur og Unnur eru bæði dáinn og eru jörðuð í fossvogskirkjugarði , Rósi og Lauga hættu einnig búskap og fluttu í bæinn og Rósi gerðist leigubílstjóri hjá bæjarleiðum , Einar gerðis einnig leigubílstjóri. Í Arnarbæli var fyrstu sumrin vinnumaður sem hét Bjössi og var hann frá Keflavík og líkaði mér mjög vel við hann , var léttur og skemmtilegur og mikill dugnaðar forkur, hann varð síðar fjósamaður að Reykjum í Ölfusi sem er fyrir ofan Hveragerði hann fór að vera með stúlku sem var að vinna þar á bænum og voru þau búinn að vera eitthvað saman og það var búið að vera eitthvað vesen á þeim og tók hann það eitthvað nærri sér , Bjössi drakk svolítið mikið á þessum tíma og reyndi víst að fyrirfara sér eftir að þau hættu, en það hafðist að bjarga honum, en einn daginn eftir að hann hafði verið á fylliríi í nokkra daga þá fór hann til vinar síns og fékk lánaða byssu því hann sagðist þurfa að skjóta kálf , en hann fór beinustu leið inní eldhúsið á Reykjum þar sem þessi fyrrum vinkona hans var að vinna og skaut hana og hún dó , hann afhenti víst strax byssuna og beið eftir að lögreglan kæmi og sækja hann , hann var dæmdur í 16 ára fangelsi . Hann var vistaður á Litla Hrauni og sat inni í að mig minnir í 8-9 ár , ég heimsótti hann nokkrum sinnum á hraunið, hann kom sér vel þar og fékk náðun fyrir góða hegðun , hann giftist meðan hann var á hrauninu hjúkrunarkonu og eignaðist með henni börn , eftir að hann kom út af hrauninu fór hann að vinna við smíðar , hann var settur í geðrannsókn eftir að hann framkvæmdi þennan verknað og kom þar í ljós að hann var ekki geðveikur , en hann virðist hafa orðið geðtruflaður þegar hann var búinn að vera á fylliríi í langan tíma.

 Dec18731      Sævar pabbi Rósant Hjörleifsson og Dönsk kaupakona og Hjálmar Guðmundsson fyrir framan

Ég fór alltaf í sveitina strax eftir að skóla lauk og oftast áður en skólaslit voru, ég fór oftast með mjólkurbátum en það var mótorbátur(Mjólkurstjarnan) sem hefur verið 50-60 tonn að stærð og gekk á milli Vestmanneyja og Stokkseyrar , og voru þetta oft erfiðar ferðir margir voru sjóveikir , en maður lét sig hafa það til þess að komast í sveitina.

Hér er  mynd af Einari Skiptó sem er hér á Vonarstjörnuni.

19ed44187e46e10bcdf3010bc5c49279_215_sigurg_rullur[1]

 

 

 

 

Mínar myndir 004

Hér er mynd af bekknum sem ég var í í barnaskólanum sennilega í 6 eða 7 bekk B eða C.

Á veturna var maður í skólanum ég hafði gaman af að teikna og fór í myndlistaskóla sem var starfræktur hér á þessum tíma. Bjarni Jónsson listmálari var teiknikennari í barnaskólanum og byrjaði hann með myndlistaskóla og var hann til húsa á neðstu hæð í barnaskólanum. Svo tók Páll Steingrímsson við af honum og flutti myndlistaskólinn þá heim til sýn en hann átti þá heima þar sem skattstjórinn á heima núna og var kennslustofan í stofunni það var þó svolítil gróska í myndlistinni á þessum árum, síðan flutti skólinn í Kuða en það var stórt hús sem var neðarlega á heimagötunni vestan við gömlu rafstöðina og þar fengum við varanlega aðstöðu , og þar voru nokkrir myndlistamenn kennarar. Ég man eftir Hafseini Austmann , og fl. Með mér í myndlistaskólanum voru á þessum árum Finnur í Fagradal , Maggi Skalli , Kiddi í Héðinshöfða og Hrefna sem er gift honum og fl.Myndlistaskólinn var að mig minnir alltaf á kvöldin ég var nokkur ár í skólanum en hætti þegar ég fór að róa á vertíðum.

Á þessum árum var alltaf nóg að gera í fiski á veturna og í páskafríum fóru flesti krakkar að vinna í fiski í páskafríinu til þess að hjálpa til við að redda hráefninu frá skemmdum , ég var oftast að vinna í saltfiski hjá Helga Ben og í Vinnslustöðinni og var þá oft unnið fram á morgun á Föstudaginnlanga og Páskadag og þótti ekkert tiltökumál þó krakkar ynnu svona mikið og ég held að við höfum ekkert skaðast á því. Á þessum árum var róið með net og voru 70-90 bátar sem réru þá frá eyjum og mikill fiskur barst að landi í kring um páska og þá var róið alla daga nema á Föstudaginnlanga og Páskadag ef gaf á sjó , og kom allur fiskur óaðgerður í land , þannig að mikill vinna var við að gera að og fletja og síðan vaska fiskinn og síðan að salta hann. Helgi Ben var með skrifstofu þar sem nú er Hressó hann átti allt það hús , Sigtryggur sonur hans var á skrifstofunni hjá honum en hann borgaði aldrei út peninga og þegar maður kom að biðja um pening þá kallaði hann í pabba sinn og Helgi kom fram og sagði " kvað þarft þú mikið er ekki nóg að þú fáið 100 krónur" hann var mjög fast haldin á aurinn.

Þetta er Sigtryggur Helgasson og mamma þegar mamma fór með Helga í siglingu til Englands

Dec19763

 

 

Ég var mikið með Sæmundi Árnasyni á þessum árum við vorum nábúar hann átti heima á Brimhólabraut 12 og við vorum í sama bekk í barnaskólanum , við vorum mikið með Gísla Val (á Björginni) syni Einars á Brekku og Helgu , hann var með herbergi á efstu hæðinni á Brekku , en Einar og Helga bjuggu á neðstu hæðinni , en á miðhæðinni bjó Gísli ljósmyndari og kona hans . Í þessum vinahóp voru auk okkar Sæma og Gísla , Kristján Guðmundsson(Gvendar Skalla), Siggi í Stakkagerði , Ármann í Öskunni og Ægir Sigurðsson og fl. Þetta var ekki neinn fyrirmyndar félagsskapur sem við kölluðum víst S.S (Sláturfélag suðurlands). Við vorum stundum að hnupla úr búðum og úr heildsölulager sem var til húsa á Heiðaveg í húsinu fyrir ofan Fjöruna (Pitsa 67) þar niðri í kjallara, þar hnupluðum við stundum súkkulaði sem nið náðum í með því að opna glugga og síðan vorum við með krókstjaka sem við kræktum í súkkulaði kassa og náðum þeim þannig út um gluggann. Einnig hnupluðum við stundum kókkassa frá Tryggva á Barnum en hann átti heima á Bjössabar (Laterna) þar upp á lofti og hann geymdi kassann á pallinum norðan við húsið, eflaus til að kæla kókið og þaðan hnupluðum við því og alltaf var farið með allt heim til Gísla Vals því hann var sá eini sem var með herbergi alveg sér og þar var haldin súkkulaði og kókveisla, en þetta var nú allt í smáum stíl .

Mínar myndir 011

Þetta er mynd sem tekinn er í Vetrargarðinum gamla en það var skemmtistaður sem staðsettur var í vatnsmýrinni í gamla Tívolígarðinum og er þetta hluti af SS genginu frá vinstri : Sæmundur Árnason Valur í Dal , Kristján Guðmundsson (skalla) Gísli Valur Einarsson (Á Björginni VE) ég og Guðjón Skaftason (Skaftafelli Vestmannabraut).

Ármann í Öskunni var eldri en við og var hann komin með bíl og var það ' Ástin bíll og vorum við oft að rúnta á honum, hann var með hurðar sem opnuðust aftur (með hjarirnar að aftan) og stefnuljósin slógust út þegar þau voru sett á og á þessu vorum vorum við að rúnta . Einu sinni þegar við Sæmi vorum að fara heim þá voru eitthverir strákar að stríða okkur og það endaði með því að við fórum í grjótkast við þá þeir voru komnir niður á skólaveg en við vorum á götunni fyrir framan Brekku og þar sem ég er að kasta grjóti þá vill ekki betur til en það að það lendir í eldhúsglugganum heima hjá Stebba Run (en það er húsið á horni skólavegar og Faxastígs).og rúðan brotnar en mamma hans Stebba sat víst við gluggann og var heppin að slasa sig ekki , við Sæmi urðum alveg skýt hræddir og hlupum af stað vestur eftir eins og fætur toguðu, Stebbi Run var heima og hljóp út á eftir okkur og náði okkur þegar við vorum komnir upp á hornið á Heiðaveg og Faxastíg og tók hann okkur og tuskaði okkur til og slógu þá litlu hjörtun í okkur mjög hratt , ég held að mamma og pabbi hafi borgað rúðuna og ekki urðu meiri eftirmálar af þessu.

Sigmar Þór og Ella Tór

Nov02100

 Á þessum árum voru krakkar mikið úti að leika sér , því ekki voru komnir tölvuleikir eða sjónvörp til að glápa á , það var mikið af húsum í byggingu í hverfinu vesturfrá og þar vorum við oft að leika okkur að skylmast með trésverðum og eða í kúreka leikjum og stundum vorum við að gera at (stríða) það var vinsælt að fara með tvinna og festa hann við glugga í húsum þar sem einhver átti heima sem gaman var að stríða (einhverjum sem ekki þoldu stríðni) og svo var farið svolítið langt í burtu í hvarf og þar var verið með olíublauta tusku og henni strokkið eftir tvinnanum og myndaði það þá ýlfur hljóð (skerandi). Baunabyssan (Teygjubyssa) var vinsælt leikfang á þessum árum og voru baunabyssu stríð oft háð á milli hverfa og var það þá oftast út í hrauni en það var vinsæll leikvöllur, þá var ekkert farið að byggja vestan Brimhólabrautar og enginn hús voru uppi á brimhólnum og var hann hærri en hann er nú eina húsið sem var þar vestan við var fjárhús og hlaða sem stóð vestan í hólnum og svo var húsið Brimhólar ( þar sem Ási Galldró á heima nú) , brimhólalautin og hraunið þar vesturaf (þar sem sundlaugin er nú) var oftar en ekki stríðsvöllurinn og var oft hart barist , baunabyssurnar voru búnar til úr ónýtum slöngum úr reiðhjólum og í skaftinu var vír sem beygður var til og í skotinn voru notaðir litlir steinar , svo að þetta var hættulegur leikur og fengu sumir göt á hausinn , en ekki man ég eftir að neinn slasaðist alvarlega .                                        'Omar bróðir

Dec19773

Fyrir áramót þá fóru allir að safna í áramótabrennur sem voru víða um eyjuna á þessum árum , við sem áttum heima á Brimhólabrautinni , Hólagötu og þar í kring vorum með brennu uppá brimhólnum ( vestur af Brimhólabraut 14) og var alltaf byrjað að safna í brennu fyrir jól og var verið að alveg fram á gamlárskvöld , þetta var gert yfirleit á kvöldin og um helgar og mesti krafturinn var í þessu á milli jóla og nýjárs , það var víða leitað fanga við söfnunina , þá voru síldartunnur sem þá voru úr tré vinsælar og alavegadrasl sem til féll . Oftar en ekki var smíðaður kofi við brennuna þar sem við höfðum afdrep á næturnar á milli jóla og nýjárs , því það varð að standa vaktir á nóttinni svo að brennudótinu væri ekki stolið á næturnar í aðrar brennur og þarna í kofanum fengu margir sér fyrsta smókinn sem oft var upp þurr njóli og urðu veikir af.

Einu sinni man ég eftir því að Pálmi á Skjaldbreið (pabbi Bóga Pálma og Palla) fór með okkur á vörubíll niður í tunnugeymslu hjá Vinnslustöðinni í skjóli nætur og var vörubíllin fylltur af tunnum og farið með þær í brennuna , og svo man ég eftir því að við fórum einhverju sinni í portið hjá Esso en það var þar sem núna er portið sunnanvið veiðafærahúsið hjá Berghuginn við fórum í skjóli nætur inní portið og náðum þar í steinolíutunnur og komum þeim yfirveggin sem snýr út í slipp hentum þeim í sjóinn og drógum þær uppí slipp og komum þeim þar á handkerru og fórum með þær uppá hólinn þar sem brennan var . Á þessum tímum voru næstum allir strákar í hverfinu í þessu brennu stússi og oft komu pabbarnir að hjálpa við að hlaða upp brennuna og fylgjast með ,ég held að við höfum haft gott af því að standa í þessu stússi.

'Omar og Halldór.

May27_75

Á veturna var brimhólinn (vestur af brimhólabraut 14) mikið notaður af okkur krökkunum þegar snjóaði, var hann notaður til þess að bruna sér niður brekkuna . Mamma smíðaði handa mér magasleða stuttu eftir að við fluttum vestur eftir , hún smíðaði hann úr mótatimbri og setti undir hann járngirði sleðinn var svolítið þungur en maður var voðalega montinn með hann , ég fór með hann upp á hólinn og brunaði mér niður brekkuna á fullri ferð en þá vildi ekki betur til en hann botnaði þegar ég fór fram af stalli sem var í miðri brekkunni en ég meiddi mig ekki en fór samt að gráta.

Grétar Snæ og Stefán Pétur bróðir í grunninum á Illugagötu 2

Dec19762

Óskar og Þóra byggðu húsið að Illugagötu 2 og eftir að þau fluttu þangað vorum við einhverju sinni að leika okkur , ég Sigurjón og Matti Óskars Kristján Óskarsson (Stjáni á Emmu) við vorum að fara yfir túnið sem liggur á milli húsanna neðst á Illugagötunni heim að Brimhólabraut 14 það var gaddavírs girðing efst á brúninni á túninu og skriðum við undir hana í lóðamörkum á Brimhólabraut 12 ( Þar sem Árni á Hvoli átti heima) Matti, Sigurjón og ég vorum á undan , en Stjáni var síðastur , ætli við höfum ekki verið að reyna að stinga hann af , en ekki vill betur til en Stjáni festir hettuna á úlpunni í gaddavírnum og hangir með fæturna fram af brúninni á moldarbarðinu sem þarna var hann byrjar að öskra en við höfðum ekki að losa hann , eftir smá stund hættir hann að öskra og það fer að koma froða út úr honum , við hlupum heim til mömmu og sögðum henni að Stjáni væri fastur og hann væri orðin eitthvað blár í framan , mamma hljóp með okkur út og sá strax hvers kyns var , hún lyfti Stjána upp og hafði að losa hann af gaddavírnum en hann var orðin helblár og froðan vætlaði út úr honum þegar mamma var búinn að losa hann tók hún hann og skellti honum upp á bakið á sér og hljóp með hann inn heima , síðan hljóp hún yfir til Ragga pól en hann átti heima að Brimhólabraut 13 , það var nefnilega ekki kominn sími heima hjá okkur en það var sími hjá Ragga pól hún hringdi í læknir annað hvort Ólaf Halldórsson eða Einar Gott og hann kom strax , en þegar hann kom var Stjáni farin að hjara við , læknirinn sagði að engu hefði mátt muna að Stjáni gæfu upp öndin en mamma hefur sennilega bjargað honum með því að skella honum yfir öxlina á sér , Stjáni var furðu fljótur að ná sér en var samt svolítið aumur í hálsinum á eftir.

Stjáni nokkrum áruð síðar , hress að vanda.

Nov02^74

 

 

 

 

 

 

 

                                                                  Á síldveiðum

Þettað er Palli á Reynir VE 15

0918483d90357344c70347b9180776b6_mynd_20[1]

Þegar ég hætti í gagnfræðaskólanum eftir 2 bekk, þá ræð ég mig á síldarbátinn Reynir VE 15 sem þá var alveg nýr , ég réði mig upp á hálfan hlut , það var algengt að strákar færu annaðhvort tveir saman upp á einn hlut , eða eins og ég gerði að fara einn upp á hálfan hlut , það var byrjað að undirbúa á síldina í júní . Það var farið norður á Akureyri til þess að ná í nótina og nótabátinn og komum við þangað fyrir 17 júní . Pabbi var kokkur á Stíganda með Helga Bergvins á þessum tíma og voru þeir einnig inni á Akureyri á 17 júní , ég man að við fórum að heimsækja mann sem hafði leikt heima hjá okkur hann hét Albert og einnig fórum við að heimsækja Sigurbjörgu systir mömmu og Pétur manninn hennar þau áttu þá heima í litlu húsi niðri á Gleráreyrum .

Það var mikið um dýrðir á Akureyri 17 júní það var verið að útskrifa stúdenta frá Menntaskólanum og var komið fyrir stóru sviði niður í miðbæ og þar var hljómsveit að spila og eitthver skemmtiatriði voru á sviðinu . Garðar Sigurðsson ( fyrrum alþingismaður) var á Stíganda og var hann orðinn svolítið fullur og þegar skemmtiatriðin stóðu sem hæðst fór hann upp á sviðið tók hann út á sér og meig yfir mannfjöldann sem stóð fyrir neðan sviðið , þetta féll ekki í kramið og hófst nú mikill eltingarleikur Garðar hoppaði niður af sviðinu og hljóp af stað niður á bryggju og hafði að komast um borð í Stíganda og faldi sig og slapp.

'Oli bróðir Palla og 'Armann

Mínar myndir 066

Eftir að við vorum búnir að taka nótina og nótabátinn þá var farið á miðinn til leitar að síldartorfum , meðan á síldarleit stóð þá var alltaf hafður maður eða menn á útkíkk uppi í bassaskíli (sem var skjólskíli uppi á brúarþaki) og þegar hann sá torfu sem óð eða ef þar var fuglager og dekkti í sjóinn undir því þá var keyrt að torfuni og kallað "klárir í bátinn" og þá þutu allir upp á dekk og nótabáturinn var dreginn að síðunni og þeir sem áttu að vera í honum stukku um borð , en hinir tóku sér stöðu við spilið , tilbúnir að draga snurpuvírinn út , mennirnir sem voru í nótabátnum gerðu klárt þar , og hentu síðan úr baugunni og þegar Palli kallaði "Fara" , slepptu þeir og nótin tók að renna út , við sem vorum í bátnum drógum út snurpuvírinn og þegar nótin var kominn út og búið að taka hringinn tókum við sem vorum í bátnum (Reyni) baujuna og tókum endann á snerpuvírnum og komum honum inn á spilið , núna var beðið smá stund meðan nótin var að sökkva og síðan var farið að snurpa , á meðan nótin var að sökkva og meðan á snurpingu stóð var notað tré fisklíkan sem bundinn var spotti í og honum fleygt í gatið á nótinni til þess að fæla síldina inn í nótina . Þegar búið var að snurpa fóru allir um borð í nótabátinn nema vélstjórinn (Júlli) bróðir Palla og kokkurinn ,og núna var hafist handa við að draga inn nótina , það voru tveir í að draga inn korkið einn í blýteininum og hinir í garninu , þetta var allt gert í höndunum og var þetta talsvert streð , þegar búið var að þurrka að síldinni (ef eitthvað var í) þá fóru nokkrir upp í bát og gerðu klárt fyrir síldina , núna var farið að háfa síldina um borð , háfurinn var hringur með neti sem var opnað að neðan og var sá er opnaði háfinn yfirleit uppi á brúarþaki og kippti í spottann þar þegar opna átti háfinn , þegar búið var að fylla , eða þegar fara átti í land að landa , þá var endinn á snurpuvírnum tekinn um borð í Reynir og nóta báturinn settur í tog og var sleftóg notaða í það . Oft var hávaði í bræðrunum Palla og Júlla á meðan verið var að kasta , því Palli var uppi í bassaskíli en Júlli var við stýrið og þegar Palli var að biðja Júlla að beygja þá átti Júlli það til að hlíða því ekki og þá heyrðist nú í mínum manni . Ekki man ég eftir öllum sem voru um borð , en þeim sem ég man eftir voru: Palli skipstjóri , Júlli vélstjóri , Friðrik Ásmundsson stýrimaður Kokkurinn Kalli og hásetar voru Símon (pabbi Bigga Sím) Engli vörubílstjóri og Óli í Hjálmholti bróðir Palla og Júlla og Ármann.  Engli vörubílstjóri að spúla dekkið , takið eftir bassaskílinu upp á brú, þar er bátur með snurpubáta í davíðum og ég held að það sé Helgi Helgasson.

Mínar myndir 067

Þegar komið var í land , til dæmis á Siglufirði þá var lagt upp að síldarplaninu og byrjað að landa af dekkinu , síldinni var mokað í mál (sem voru hálftunnur með brakketti) við vorum með síldarháfa við þetta verk síðan var hvolft úr málunum í vagna sem voru á lestateinum sem lágu meðfram síldarjötunum sem konurnar stóðu við og hausskáru síldina í bakka , sem þær tóku síðan úr og röðuðu í trétunnur og söltuðu yfir hvert lag , á meðan við vorum að landa og þegar konurnar höfðu ekki við þá fórum við og hjálpuðum einhverjum stelpum sem okkur leist vel að salta .Þegar búið var að landa í salt , þá var farið undir ranann sem lág upp í þrærnar og var honum slakað niður í lest og mokað að honum.

Mig minnir að við höfum fengið 3600 mál þetta sumar. Við lönduðum mest á Siglufirði og Raufarhöfn . Það var oft glatt á hjalla í landlegum þegar allir voru í landi , því síldarsöltun krafðist mikils mannafla bæði konur og kalla og var því mikill fjöldi af fólki á þessum stöðum og var því líflegt á böllunum sem haldinn voru og oft mikið um slagsmál og talsvert fyllirí . En þetta var ævintýri fyrir 14 ára strák.

Eftir að við komum heim af síldinni fór ég að vinna við smíðar hjá Gvendi Bö þá var verið að hann að byggja króarhúsnæði fyrir Helga Bergvins (þar sem Beddi á Glófasa er með kró núna)og einnig var hann að byggja stórhýsi fyrir Finn á Oddgeirshólum (það er húsið sem Heimir tannlæknir er með stofuna í og á núna að fullu).


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta var skemmtileg lesning,þú minnist þarna á Nethamra,en þar bjó að mig minnir á árunum 1966-71,móðurbróðir minn Baldur og hans frú Hulda.Það var virkilega mikil skemmtun að koma þarna austur í heimsóknir,og oft var farið niður í þorlákslæk og veitt og þá einnig í ósana.Hafðu þökk fyrir hlýleg og góð skrif,manni bara iljar að tala um sveitina,á þaðan bara góðar minningar sem aldrei gleymast.

Númi (IP-tala skráð) 24.2.2008 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband